Kristófer jafntefli og Tinna vann.

  Nú er 6 umferð loksins lokið.  Í gærkveldi þegar Kristófer loks lauk sinni skák var búið að loka netkaffinu svo ég átti engin úrræði til að setja úrslit umferðarinnar á netið og þar við sat.  Nú  í morgun bregður allt í einu svo við að ágætis samband er inn á hótelinu og er það í fyrsta sinn.

  Tinna var fyrst til að sigra í sinni skák á tæpum klukkutíma, en hún mátaði í 18 leikjum, sannarlega glæsilegt hjá henni og nú er hún allt í einu komin í miðjan hóp í sínum flokki.  Mikhael tapaði á tæpum tveimur tímum, en átti fína möguleika á að ná yfirhöndinni á kafla.  Bjarni átti tæplega 3ja klukkustundarlanga skák, en tapaði.

  Lengstu skák íslendinganna hingað til átti Kristófer í gærkveldi.  Hann var ekki komin út fyrr en rétt fyrir kl. 22 um kvöldið eftir tæplega 5 tíma setu og þá var matnum að ljúka en hann náði að skófla einhverju í sig á hlaupum svona rétt áður en þeir skelltu í lás.  Skák hans var hnífjöfn allan tímann og við tók endatafl, þar sem báðir áttu hrók og fimm peð.  Klukkutíma seinna hafði peðunum fækkað um tvö hjá hvorum og enn allt í járnum.  Helgi spáði því að þessari skák myndi ekki lljúka með jafntefli, þar sem báðir strákarnir ætluðu sér sigur.  Löngu seinna enduðu þeir svo með sinn hvorn hrókinn og jafntefli reyndist óumflýjanlegt.

Kristófer Gautason ( 0) İslandi - Keleptrishvili Irakli (1751) Georgíu = 1/2 - 1/2.
Mikael J Karlsson (1703) İslandi - Gundogan Cem (1819) Tyrklandi = 0 - 1.
Bjarni J Kristins. (2023) İslandi - Pradeep K Raghu (2202) Indlandi = 0 - 1.
Elansary Emari (1926) Egyptaland - Tinna Finnbogad. (1710) İslandi = 0 - 1.

  Eftir 6 umferðir er Tinna því með 3 vinninga, Kristófer með 2,5 og Mikhael og Bjarni með 2.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Taflfélag Bolungarvíkur  Ritstjóri Halldór Grétar

Frábært hjá krökkunum. Ég les ykkur Gylfa daglega.

Gangi ykkur vel í seinni hlutanum !

Kveðja

Halldór Grétar

Taflfélag Bolungarvíkur Ritstjóri Halldór Grétar, 17.11.2009 kl. 08:18

2 identicon

Gaman að fylgjast með pistlunum og ég sendi baráttukveðjur út. Krakkarnir munu búa lengi að þessari reynslu! Mikilvægt að muna að þótt andstæðingarnir heiti skáklegum nöfnum sem enda á -vich, -shvili, -ev eða -ov þá þýðir það ekki að þeir séu "ógesslegagóðir". Ég lærði það uppúr tvítugu....

Kv. Bjössi Þorfinns,

P.s. Þegar við vorum á Limra-hótelinu var alltaf betra netsamband við kaffibarinn á móti lobbýinu!

Björn Þorfinnsson (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 09:08

3 Smámynd: Taflfélag Vestmannaeyja

Gott að vita þetta með kaffibarinn. Reyndar virðist netsambandið á þeim bar ekki vera eins gott og þegar þið voruð á Limra fyrir 2 árum. Hér er netsamband háð einhverjum óskiljanlegum duttlungum, eins og t.d. núna er það gott. En hvað um það gaman að heyra frá ykkur og þessi -vich og -shvili eru jóns- og sigurðssynir þessara þjóða.

Taflfélag Vestmannaeyja, 17.11.2009 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband