28.12.2008 | 20:31
Tvískákmeistaramót Vestmannaeyja 2008.
Þriðjudagskvöldið 30. desember n.k. kl. 19:30 fer fram Tvískákmeistaramót Vestmannaeyja 2008.
Allir sem ekki mæta með samherja verður útvegaður samherji á staðnum. Öllum er heimil þátttaka en einungis þeir sem búsettir eru í Eyjum geta orðið Tvískákmeistarar Vestmannaeyja. Keppt verður um sæmdartitilinn Tvískákmeistarar Vestmannaeyja 2008.
Telft eftir reglum TV um tvískák sem samþykktar voru 1. nóvember 1907. Þó gildir regla nr. 7 ekki á mótinu í þetta skipti :
1. AFBRIGÐI. Tvískákkeppni fer fram eins og hefðbundin skákkeppni með þeim undantekningum sem hér greinir.
2. LIÐSSKIPAN. Keppendur í tvískák eru fjórir, tveir í hvoru liði. Keppt er á tveimur skákborðum samtímis. Liðsmenn sama liðs sitja sömu megin við borðin, annar hefur hvítt en hinn svart. Andstætt þeim situr hitt liðið og hvor liðsmanna teflir við annan liðsmann hins liðsins. Klukkur eru við bæði borðin og snúa báðar inn að borðunum svo allir keppendur sjái á báðar klukkurnar.
3. SIGUR. Lið vinnur ef annar liðsmaður þess mátar andstæðing sinn eða annar liðsmaður andstæðinganna fellur á tíma. Annars gilda sömu reglur um mát og fall á tíma og í hefðbundinni skák.
4. HEGÐAN & BERSERKSGANGUR.[1] Í tvískák er liðsmönnum heimilt að hreyfa menn á báðum borðum síns liðs, þ.e. einnig fyrir félaga sinn og slá á klukku hans. Liðsmanni er líka heimilt að gefa félaga sínum ráð, hvísla að honum, biðja um menn og allt hvað eina. Hins vegar verða báðir liðsmenn að sitja í sínu sæti. Keppendur mega kalla og tala, en berserksgangur er óheimill. Mat á hvort menn ganga berserksgang er í höndum dómara og gefur hann viðvörun áður en hann dæmir liðhlaup eða tap.
5. ÓLÖGLEGUR LEIKUR & LIÐHLAUPI.[2] Ef keppandi leikur ólöglegum leik velur andstæðingur liðhlaupa frá honum, en liðhlaupi er þegar þú tekur mann sem er í höfn andstæðings. Ólöglegur leikur sem sést síðar verður ekki bættur, nema hann sé enn óheimill. Heimilt er að velja liðhlaupa hvern þann mann sem er í höfninni. Liðhlaupanum er komið yfir til félaga þess sem heimtir hann.
6. MANSAL[3] & HÖFN. Ef keppandi drepur mann andstæðings síns selur hann manninn mansali til félaga síns og má þá félaginn setja þann mann inn á sitt borð næst þegar hann á leik eða þegar hann kýs. Hann má þannig kjósa að setja menn ekki inn á borðið og safna þeim í höfn til síðari tíma. Skylt er að menn í höfn séu sjáanlegir andstæðingi.
7. SETT Í MÁT. Heimilt er að leggja mann inn á borðið sem framkallar mát í skákinni.
8. KÓNGUR. Kóng má ekki drepa, heldur telst það ólöglegur leikur að bjarga kóng ekki úr skák.
9. UPPVAKNINGUR. Ef peð gengur upp í borð skapar það ekki uppvakning.
10. BROT. Ef menn ætla að brot hafi verið framið á reglum þessum dæmir dómari jafnóðum, gefur aðvörun um refsingu en dæmir síðan viðstöðulaust. Ef menn taka upp á kvörtunum í gríð og erg er dómara rétt að aðvara þann hinn sama og dæma hann svo. Refsingar eru einungis þrjár, aðvörun, liðhlaup eða töpuð skák.
Reglur þessar gilda í tvískákmótum TV, nema afbrigði séu samþykkt fyrirfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.