3.10.2008 | 08:27
Menn sammála um að vel hafi til tekist.
Í gærkveldi var fyrsta fyrirlestra- og skemmtikvöld félagsins á dagskrá. Eftir kvöldið held ég að menn séu sammála um að þessi tilraun hafi lofað góðu. Það á hins vegar eftir að reyna meira á þetta og þess vegna höldum við áfram að bjóða upp á slík kvöld, kannski einu sinni í mánuði.
Björn Ívar Karlsson reið á vaðið og hann byrjaði að fara yfir skák Nataf (TV) og Stefáns K. frá því í deildakeppninni 2006-2007. Það var gaman að sjá þessa skák skýrða og Birni Ívari tókst vel að skýra hinn beitta skákstíl Nataf, sem sigraði glæsilega í þessari skák.
Því næst fór Björn yfir nokkur skákdæmi og tóku áheyrendur, sem voru 12 talsins, góðan þátt í umræðum. Björn endaði síðan á að fara yfir skák frá Herceg Novi 1970 þar sem Viktor Kortsnoj stjórnaði hvítu mönnunum á móti Bobby Fischer (Kóngindversk vörn). Skemmtilegt var að hlusta á Björn skýra skákina sem endaði með sigri Fischers.
Fyrirlestrinum lauk um kl. 21. Ég vona að þegar reynsla verður komin á þetta, komi fleiri til með að mæta á þessi kvöld og þá einnig þeir sem alla jafna mæta ekki á skákkvöld, en í gær sáum við t.d. dæmi þess.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.