Helgi Ólafsson sigraði á afmælismóti TV.

TV-Fyrsti-leikur  Afmælismót Taflfélags Vestmannaeyja sem haldið var í tilefni 90 ára afmælis TV fór fram um síðustu helgi. Mótið var mjög vel skipað og keppendur voru  24, þar af tíu félagsmenn í TV. Meðal keppenda voru fimm skákmeistarar með alþjóðlega titla, þar af einn stórmeistari. Keppt var í skáksetri TV við Heiðarveg og var mótið svokallað atskákmót, umhugsunartími 20 mín. á skák á hvorn keppenda og 5 sek. til viðbótar fyrir hvern leik. Hver umferð tók um 60 mínútur. Mótið hófst kl. 12.00 á laugardag og voru þá tefldar fimm umferðir. Keppendum var boðið í rútuferð um Heimaey í lok fyrri dags. Á sunnudag voru tefldar fjórar umferðir og lauk mótinu síðdegis með verðlaunaafhendingu. Landsbankinn var helsti styrktaraðili afmælismótsins. Sigurvegari á afmælismótinu varð Helgi Ólafsson, stórmeistari með 8 vinninga af níu mögulegum. Í 2.-3. sæti urðu Davíð Kjartansson og Oliver Jóhannesson, báðir FIDE meistarar með 6,5 vinninga. Í 4.-6. sæti urðu Ólafur Hermannsson TV, Sævar Bjarnason alþjóðlegur meistari og Stefán Bergsson, allir með 5,5 vinninga.

  Í mótslok  flutti sigurvegarinn Helgi Ólafsson ávarp og sagði frá uppvaxtarárum sínum í skákinni í Eyjum, 1968-1973. Fjölskylda Helga bjó hér um árabil og faðir hans Ólafur Helgason var  bankastjóri útibús Útvegsbanka Íslands í Eyjum á miklum umbrotatímum í tengslum við eldgosið 1973 og uppbygginguna í kjölfar þess. Helgi hefur ávallt verið í góðu sambandi við sitt uppvaxtarfélag í skákinni og oft á tíðum teflt fyrir félagið á Íslandsmóti skákfélaga.

  Arnar Sigurmundsson formaður TV lýsti ánægju sinni með framkvæmd mótsins og þakkaði Vestmannaeyjabæ og fjölmörgum fyrirtækjum fyrir stuðninginn við félagið á liðnum árum. Þá sagði hann mjög ánægjulegt að nú er hafin á ný formleg skákkennsla í Grunnskóla Vestmannaeyja og kennari við GRV orðinn skákkennari. Nú er unnið að undirbúningi að skákkennslu í Hamarsskóla, en margir skólar á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi eru með skákkennslu á námsskrá í ákveðnum árgöngum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband