2.10.2015 | 10:00
Arnar aftur formaður eftir 53 ár
Hinn 5. september s.l. fór fram aðalfundur Taflfélags Vestmannaeyja. Fram kom að afkoma félagsins hefur verið góð undanfarin ár, en mest púður hefur farið í þátttöku félagsins á íslandsmóti skákfélaga og höfum við verið þar með vaska sveit innlendra og erlendra skákmanna á okkar snærum undir öruggri stjórn liðsstjóra okkar, Þorsteins Þorsteinssonar. Þrátt fyrir alla þessa viðleitni með gífurlega sterkum skákmönnum, þá tókst okkur ekki að landa titlinum en urðum 4 sinnum í 2 sæti og jafnoft í því þriðja síðustu 11 ár, en margir myndu telja góðan árangur. Á engan er hallað þó segja megi að hitann og þungann af A-sveitinni hafi Þorsteinn (Stone) borið og er honum þakkað góð störf fyrir félagið. Þá er ekki úr vegi að þakka hollum liðsmönnum félagsins, sem nú eru horfnir til annarra félaga, en þetta eru þeir ; Helgi Ólafsson GM, Björn Ívar Karlsson, Ingvar Þór Jóhannesson, Henrik Danielsen GM, Sigurbjörn Björnsson, Kristján Guðmundsson og Björn Freyr Björnsson. Takk strákar, við tökum þetta síðar !
Það var þó alltaf jafnljóst að sinna þyrfti starfinu í heimahögunum, reyna að byggja upp starfið í Eyjum, lagfæra húsnæði félagsins og greiða niður lán á húsnæðinu, en allt þetta hefur að undanförnu setið á hakanum.
Það var því tímamótaákvörðun sem tekin var í sumar að draga lið okkar úr keppni í 1 deild og bakka "down to the basics" og senda skraplið í 4 deild. Það tókst ágætlega og ánægjulegt að nokkrir strákar sem ekki hafa teflt lengi létu sjá sig og stóðu sig bara fjári vel.
Á aðalfundinum voru lagðar línur í þessa veru. Þegar kom að stjórnarkjöri kom fram að formaðurinn, Ægir Páll gæfi ekki kost á sér áfram, þar sem hann er að flytjast búferlum frá Eyjum. Formaður var því kjörinn, Arnar Sigurmundsson sem hefur verið skoðunarmaður reikninga í einhver ár eða áratugi. Það sem er athyglisvert við formannskjör Arnars er að hann var síðast kjörinn formaður í félaginu haustið 1962 eða fyrir 53 árum síðan og er líklega vandfundið það félag sem hefur á að skipa jafn dyggum félagsmönnum. Gott er til þess að vita að fleiri formenn frá sjöunda áratugnum eru enn virkir í félaginu,t.d. bæði Andri Valur Hrólfsson og Ólafur Hermannsson og enn fleiri frá áttunda áratugnum svo ekki þarf að leita langt með forystusveit á komandi árum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.