Skákþing Vestmannaeyja - lokaumferð

 Í kvöld fór 9. umferð Skákþingsins, sem jafnframt var lokaumferðin.

Formaðurinn stýrði hvítu mönnunum gegn Birni, ,,hinum unga". Gauti beitti óhefðbundnu afbrigði gegn Sikileyjarvörn Björns. Fljótlega tók staðan á sig mynd franskrar varnar þar sem hvítur leitaði færa á kóngsvæng en svartur á drottningarvæng. Þegar Gauti var kominn í hörkusókn urðu honum á mistök í útreikningi og Björn vann peð og náði um leið að verjast atlögum hvíts. Þegar ljóst var að svartur var að ná vinnandi yfirburðum fórnaði Gauti drottningu, 2 hrókum og manni, sem gekk því miður ekki upp, og varð að játa sig sigraðan. Að skákinni lokinni lét hann svo þau fleygu orð falla að annaðhvort ,,gerir maður þetta með stæl eða sleppir því".

Einar hafði hvítt á Sigurjón og tefldist Caro-Kann. Einar beitti Panov-árásinni sem einkennist af drápi á d5 í 3. leik og svo 4. c4. Hann fékk fljótlega mun rýmri og þægilegri stöðu og pressaði stíft að veikri peðastöðu Sigurjóns. Með hárréttum uppskiptum og tókst honum að auka pressuna og beindi nú spjótum sínum að kóngi svarts. Fátt var um varnir en Sigurjón þræddi lengi hárfína línu til þess að bjarga kóngsstöðunni og skákinni. Undir lokin fann Einar bráðskemmtilega drottningarfórn sem leiddi til óverjandi máts og þá gafst Sigurjón upp. Virkilega vel teflt hjá Einari.

Róbert hafði hvítt á Nökkva, sem beitti Najdorf-afbrigði Sikileyjarvarnar. Svartur hóf snemma mikla útþennslustefnu á miðborðinu og þurfti Róbert að grípa til róttækra aðgerða til þess að bjarga liðsafla sínum. Hann fórnaði manni með von um að vinna hann til baka en Nökkvi lumaði á stórhættulegu banaráði sem vann drottningu hvíts og neyddi Róbert til að gefast upp.

Daði Steinn hafði hvítt á Stefán sem tefldi franska vörn. Upp kom óvenjuleg staða snemma þegar Stefán forðaðist jafna, og samhverfa peðastöðu, með drápi á d5 með drottningu. Daði hafði rýmra tafl en missti þráðinn í miðtaflinu og Stefán vann peð. Hvítur hafði mótspilsmöguleika vegna veikleika svarts á svörtu reitunum og gloppóttrar kóngstöðu. Stefán óð upp með a-peð sitt en Daða Stein varðaði lítið um það og treysti á sókn gegn kóngi svarts með hrók, biskup, h-peð og sinn eigin kóng! Þegar kóngur hvíts var kominn alla leið á f8 og svartur í þann mund að vekja upp drottningu varð keppendum ljóst að hvítur átti gangandi þráskák og þá slíðruðu þeir sverð sín. Hörkuspennandi skák.

Þórarinn Ingi hafði hvítt á Sverri sem tefldi Najdorf-afbrigðið. Þórarinn valdi sjaldgæfa leið með 7. Df3 og Sverrir jafnaði fljótt taflið. Svartur fann svo skemmtilega leið til þess að opna miðborðið með Rb4 og d5! og fékk mun betra tafl. Sverrir vann svo fljótlega peð og með slæma peðastöðu og litla möguleika á jafntefli varð Þórarinn að gefast upp. Markviss og góð skák hjá Sverri.

Kristófer hafði hvítt á Sigurð, sem beitti Philidor-vörn. Kristófer fékk snemma rýmri og betri stöðu og vann fljótlega peð. Hann skipti svo upp á svartreitabiskup sínum fyrir riddara og missti þá aðeins tökin á svörtu reitunum á miðborðinu. Sigurður nýtti sér það til gagnfæra og vann peðið til baka. Þá kom upp endatafl sem sennilega var betra á hvítt en keppendur ákváðu að taka enga áhættu og sömdu um jafntefli.

Lárus og Eyþór voru báðir veikir í kvöld og sömdu um jafntefli í skák sinni án taflmennsku.

Þar með er enn einu Skákþinginu lokið. Björn Ívar varð skákmeistari Vestmannaeyja 2010, nokkuð örugglega, með 8,5 vinning af 9. Nökkvi skaust upp í 2. sætið með sigrinum í kvöld og Sigurjón verður að láta sér 3. sætið nægja. Athygli vekur árangur Stefáns, en hann græðir 51 stig í mótinu, og er á mikilli siglingu þessa dagana! Menn mótsins eru þó ótvírætt ungu mennirnir, Nökkvi, Daði Steinn, Kristófer, Sigurður og Róbert, sem allir stóðu sig vel og eru í miklum stigagróða.

- BÍK

úrslit 9. umferðar:

 

Bo.NamePtsRes.PtsName
1Karl Gauti Hjaltason0  -  1Bjorn-Ivar Karlsson
2Einar Gudlaugsson1  -  06Sigurjon Thorkelsson
3Robert Aron Eysteinsson0  -  15Nokkvi Sverrisson
4Dadi Steinn Jonsson4½  -  ½Stefan Gislason
5Thorarinn I Olafsson40  -  14Sverrir Unnarsson
6Kristofer Gautason½  -  ½Sigurdur A Magnusson
7Larus Gardar Long2½  -  ½1Eythor Dadi Kjartansson
 Jorgen Freyr Olafsson21  -  - Bye

lokastaðan

 

RankNameRtgPtsBH.
1Bjorn-Ivar Karlsson217542½
2Nokkvi Sverrisson1750646
3Sigurjon Thorkelsson1885645
4Einar Gudlaugsson182045½
5Sverrir Unnarsson1880546½
6Stefan Gislason1650544½
7Dadi Steinn Jonsson155044½
8Thorarinn I Olafsson1640445½
9Kristofer Gautason1540444½
10Sigurdur A Magnusson1290435½
11Karl Gauti Hjaltason156044
12Robert Aron Eysteinsson131537½
13Jorgen Freyr Olafsson1110333½
14Olafur Tyr Gudjonsson165035
15Larus Gardar Long112534½
16Eythor Dadi Kjartansson127531½
17David Mar Johannesson1185032½

mótið á chess-result


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband